Horse Breeding - Horses for sale

Close Icon
   
Contact Info     +354 864 1315 hamarsey@hamarsey.is

Gleðileg jól frá Hákoni

hakonjolakortHákon hefur haft það gott síðastliðið ár. Í janúar 2008 var hann tekinn undan móður sinni Hátíð og sendur í vist hjá Jens Petersen á Stokkseyri.

Hákon fór í tvö ferðalög síðasta vetur. Hann fór í fortamningu til Magga Lár og Svanhildar Hall þar sem traust og virðing milli manns og hests eru í hávegum höfð. Í mars kom Hákon fram á aðalfundi Ræktunarfélagsins síns í reiðhöllinni að Sörlastöðum í Hafnarfirði.

Í júní var honum sleppt í tittagirðingu ásamt sex öðrum veturgömlum og tveggja vetra félögum sínum á Ragnheiðarstöðum. Þeir nutu frelsisins í um 20 hektara hólfi, kafloðnu og grænu fram eftir hausti. Í lok október voru folarnir teknir heim í minna hólf að Ragnheiðarstöðum og byrjað var að gefa út í byrjun nóvember. Hólfið er tryggilega girt með tveggja strengja rafmagnsgirðingu allan úthringinn, í því er rennandi vatn, mikið skjól og góð beit.

Það vildi þó ekki betur til en að einn góðviðrisdag í nóvember var komið að Hákoni ofan í skurði. Á einhvern hátt hafði hann komist yfir eða undir girðinguna, án þess að laska sjálfan sig eða girðinguna, og var í sjálfheldu þar sem hinn bakkinn var líka girtur. Það sást strax að Hákon hafði ekki verið lengi í skurðinum, honum var hjálpað upp úr og var hann hinn frískasti. Hann var þó tekinn inn til Erlings og Viðju í Langholti til öryggis í nokkra daga þar sem Páll dýralæknir skoðaði hann.

Hákon komst klakklaust frá buslinu en ljóst er að heppnin var með okkur. Sá rauðskjótti hefur það gott í dag. Myndin á jólakortinu er tekin 14. desember síðastliðinn. Ef ætti að finna nokkur orð til að lýsa Hákoni á þessari stundu, byggingar- og hreyfingalega, eru efst í huga fótaburður, léttleiki, mjúkur háls og fótahæð. Stefnt er að aðalfundi í mars 2009 þar sem ýmis mál varðandi félagið verða rædd auk þess sem dregið verður um hvaða heppnu hluthafar munu fá að koma með hryssu undir Hákon sumarið 2009.

Stjórn ræktunarfélagsins sendir hluthöfunum, félögum og vinum, kærar óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.