Rekstur á sunnudegi
Það er gaman að brjóta upp þjálfunarmynstrið. Þó að félagssvæði hestamannafélagsins okkar, Sörla í Hafnarfirði, hafi upp á að bjóða fjölbreyttustu og fallegustu reiðleiðir á landinu þá vantar eitt. Það er ekki hægt að reka. Hraunið er úfið og stórhættulegt mönnum og hestum ef út fyrir hefðbundnar reiðgötur er farið. Því brugðum við á leik um síðustu helgi og spenntum kerruna fyrir og fórum með hrossin í rekstur með vinum okkar íAusturási.
Þetta er eitthvað sem hjónin í Austurási gera nánast um hverja helgi, allar hryssur og geldingar út í veðurblíðuna og hlaupa 3-6 kílómetra, allt eftir veðri og þjálfunarstigi. Aðstaðan til þess er góð, rekið út Votmúlaveginn til austurs og svo suður eftir Gaulverjabæjarveginum.

Falur, Seytla og Hreimur leiddu reksturinn svo suðreftir Gaulverjabæjarveginum. Takið eftir hvað Falur strekkir vel á yfirlínunni, Haukur fór yfir þetta með honum í bóklegu daginn áður.

Sprett úr spori. Sara og Linda taka forystuna í rekstrinum, Falur Hauks Baldvins gefur ekki tommu eftir.