Álaborg fylfull við Aroni
Við fengum gott símtal frá Gumma Bærings, húskarli í Árbæ, í gær. Álaborg frá Feti hafði sónarskoðast fylfull við Aroni frá Strandarhöfði. Álaborg er ein af stofnræktunarhryssum hjá Hamarsey en búið á helminginn í henni á móti hrossaræktarbúinu Feti. Fyrir á Hamarsey Álaborgarsoninn og stóðhestefnið Alvar sem nú er veturgamall, gullfallegur, óvenju hreyfingafallegur foli, laus í bógum, hágengur og mjúkur. Það er hins vegar vonast eftir brúnni eða jarpri hryssu næsta vor undan Álaborg og Aroni.